Mengun og skemmtileg heimsókn…………….

 

Dagarnir líða hægt en nokkuð örugglega hjá fólkinu frá Íslandi, þaðan sem þau koma og þar sem þau fæddust í þennan heim. Á eyjunni köldu sem rís tignarlega upp úr hafi, þar sem  vindar geta blásið harkalega, frostið orðið mikið og ef svo ber undir þá getur ringt linnulaust og einnig snjóað mikið, þar sem sumrin geta verið ægifögur og fátt fallegra en sólsetrið á haustin, norðurljósin, litadýrð og hreint loft og þar sem hreint vatn rennur um allt, sjórinn fullur af fiski og hrein orka. Þetta er ekki svona í Nýju Delhi á Indlandi, þar er loftið svo mengað og er orðið að svaklegu heilsufars vandamáli, mengaðast borg í heimi er talað um þar sem um 18. milljónir manna búa á Delhi svæðinu og þar af um 13. milljónir í borginni sjálfri. Hitastigið á sumrin getur auðveldlega farið yfir 50 stig, mikil fátækt, vatnið mengað og rusl út um allt. Þjóðfélagið hér er svo ólíkt því íslenska. Vá hvað við á eyjunni okkar fallegu getum verið þakklát fyrir að eiga heima þar, þó svo að það sé langt í frá allt í góðum gír þar á bæ.

Við Heiða fengum góða heimsókn í dag. Þegar Heiða var rúmlega hálfnuð með sjúkraþjálfunartímann fór ég upp í móttöku til að taka á móti gestunum sem höfðu boðað komu sína til okkar. Þegar ég kem í móttökuna þá sita þar tveir tignarlegir karlmenn, klæddir jakkafötum og brosa til mín. Sendiherra Íslands á Indlandi Þórir Ibsen var mættur ásamt Sendifulltrúa Íslands Hauki Ólafssyni til að hitta okkur Heiðu. Ég fór með þeim niður og Heiða tók á móti þeim með bros á vör þar sem hún stóð óstudd og bauð þá velkomna. Þeir fylgdust með Heiðu klára tímann og svo kíktu þeir í herbergi 106, þar var  riggað upp harðfiski við mikinn fögnuð og auðvitað var boðið upp á íslenskt nammi. Við spjölluðum heilmikið og þeir félagar gáfu sér góðan tíma í að spjalla við okkur. Þeir höfðu mikinn áhuga hvernig gengi hjá Heiðu og hrósuðu henni mikið, fyrir dugnaðinn og kraftinn sem hún  býr yfir. Það var mjög gaman að fá þá í heimsókn og þökkum við þeim kærlega fyrir að gefa sér tíma til að kíkja til okkar. Flottir félagar á ferð og gott að vita af þeim hér í nágrenninu. Þeir kvöddu okkur nokkrum Rís Kubbum ríkari. Við hittum þá vonandi aftur seinna.

DSC02107

Þórir Ibsen og Haukur Ólafson kíktu á Heiðu í Sjúkraþjálfun………….

Heiða í góðum félagsskap, Þórir og Haukur ánægðir að fá harðfisk og Freyju rís kubba.....ekki amalegt það.......

Heiða í góðum félagsskap, Þórir og Haukur ánægðir að fá harðfisk og Freyju rís kubba…..ekki amalegt það…….

Heiða fékk sprautur í andlit og mjaðmir í dag og svo var settur upp brunnur í æð og  henni gefnar stofnfrumur þar á tveggja tíma fresti, stórir skammtar. Allt gengur barasta vel og Heiða fær svo aftur mænulegg næsta mánudag og þá í þrjá daga.

Bestu kveðjur og góða helgi.

Heidi og Snorri

One thought on “Mengun og skemmtileg heimsókn…………….

 1. Sæll frændi, það er gott að heyra að allt gengur vel hjá ykkur.
  Það var gaman að lesa þessi skrif, þú ert bara nokkuð góður penni 🙂
  Það gengur misjafnlega fyrir mig að fylgjast með þessari síðu, þar sem hún er svolítið þung og ég ekki með eins góða tengingu hérna úti á sjó eins og í landi.

  Skilaðu þróttmiklum þrusukveðjum til Heiðu.
  Kær kveðja
  Ingi Guðni

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *