Um Heiðu

Bjarnheiður Hannesdóttir eða Heiða er fædd í Keflavík 13. September 1980. Foreldrar Heiðu eru þau Hannes Arnar Ragnarsson og Halldóra Lúðvíksdóttir. Heiða á tvo bræður þá Helga og Arnar Dór. Heiða ólst upp í Keflavík og hóf ung að árum að láta til sín taka í búðinni hjá mömmu sinni og pabba, byrjaði fljótt að hafa áhuga á tísku og hönnun. Heiða vann í tískuvöruversluninni Kóda sem foreldrar hennar ráku um all langt skeið. Það kom fljótt í ljós að Heiða hafði mikla hæfileika á sviði tísku og hönnunar og það hefur fylgt henni allar götur síðan hún sleit barnsskónum í Keflavík. Heiða fluttist til Reykjavíkur þegar hún var um 21 árs gömul, þá orðin móðir, fór í skóla og starfaði m.a. í pulsuvagni foreldra sinna.

Heiða og Snorri kynntust árið 2005 á fallegri vor nótt í miðbæ Reykjavíkur og þar kviknaði neisti sem leiddi til þess að þau byrjuðu að búa saman. Heiða þá með son sinn Hannes Arnar sem er fæddur 25. okt. 2001 og Snorri með dóttur sína Önnu Halldóru sem er fædd 19. júlí 1999. Heiða var þá að vinna en fór svo í Iðnskólann að nema hönnun sem síðar leiddi til náms í hönnun í Barcelona en þangað flutti fjölskyldan árið 2008 og þá var komin lítil prinsessa í hópinn hún Halldóra Mjöll Snorradóttir. Dvölin í Barcelona var bæði skemmtileg og erfið, námið var mikil vinna og lærdómurinn og ákafin við að standa sig vel tók sinn toll, Snorri hugsaði um börnin á meðan Heiða stundaði námið af miklum krafti en Heiða var ekki heil heilsu. Heiða hafði í nokkur ár fundið fyrir miklum ristilstruflunum með tilheyrandi sársauka og vandamálum. Hún varð að taka hægðarlosandi lyf sér til hjálpar og með tímanum þurfti hún alltaf meiri og meiri lyf við þessu erfiða vandamáli sem endaði með því að fjarlægja þurfti allan ristilinn. Fjölskyldan kom heim frá Barcelona um sumarið 2009 í sumarfrí en það frí endaði með því að Heiða þurfti í stóra aðgerð þar sem ristillinn var fjarlægður. Allur ristillinn var tekin og Heiða lá á spítala á meðan hún var að jafna sig eftir þessa stóru aðgerð. Skólinn í Barcelona var að byrja aftur eftir sumarfrí og Heiða var staðráðin í að hún færi í skólann. Læknar og fjölskylda ráðlögðu henni að taka smá hvíld frá skólanum á meðan hún væri að jafna sig en Heiða var staðráðin í að fara út og halda áfram. Heiða og Snorri héldu út og Heiða byrjaði í skólanum en heilsan var ekki góð og þurfti Snorri m.a. að bera fyrir hana töskuna í skólann því hún mátti ekkert reyna á sig.

Heiða stundaði skólann og keyrði sig alveg á kaf, ætlaði sko ekki að láta veikindin sín stoppa sig. Hrunið á Íslandi gerði fjölskyldunni erfitt og Snorri varð að fara heim til að vinna. Heiða varð eftir í Barcelona með börnin og ráðin var aupair. Veikindi Heiðu höfðu svo sannarlega tekið sinn toll og námið í Barcelona var að buga hana og það endaði með því að Heiða og Snorri skildu í desember 2009. Við tók erfiður tími hjá Heiðu og Snorra og börnum. Heiða reyndi hvað hún gat að klára námið en það gekk ekki og skrýtnir tímar tóku við. Heiða og Snorri héldu í sitthvora áttina og Heiða flutti heim og stofnaði hönnunar fyrirtæki og fór að starfa sem fasteignasali. Á þessum tíma fór Heiða að grennast mikið og var vægast sagt mjög veik, ristillinn var farin og hún hugsaði ekki vel um sig. Hún var alltaf að hugsa um útlitið og passaði sig mikið að bæta ekki á sig kílóum og var byrjuð að nota vatnslosandi efni til að halda sér í þyngd og gott betur en það, hún léttist meir og meir. Á þessum tíma vissum við ekki að Heiða var að glíma við hryllilegan sjúkdóm sem kallast Átröskun, hún vissi það ekki sjálf. Hún vildi stjórna sínum líkama og hugsaði ekki vel um sig. Hún náði að skola öllu út án þess að kasta upp, þetta var auðvelt hjá henni því ristillinn var farin og einnig tók hún vatnslosandi efni. Allaf borðaði Heiða vel og einnig hollan mat og var mikið í grænmeti, hún var í raun alveg sjúk í mat, mat elsk með eindæmum og naut þess að borða, borðaði eðlilega en hugsaði mikið um mat og matarvenjur hennar voru ýktar.

Á þessum tíma var hún gjörsamlega að keyra sig út og vegna mikillar vatnslosunar og ristills leysi þá varð mikill kalíum skortur í blóði hennar, langvarandi kalíum skortur er mjög hættulegur og þurfti hún oft að fara upp á spítala til að fá kalíum í æð og einnig á gjörgæslu, í eitt skipti var hún nær dauða en lífi út af kalíum skorti. Heiða vildi ekki hlusta á lækna og hélt áfram sínu lífi og tók vatnslosandi og hélt áfram að skola öllu út. Allt gert til að líta vel út og bæta ekki á sig kílóum. Heiða var ekki mikið inn á líkamsræktarstöðvum. Alltaf var henni hrósað fyrir hvað hún væri glæsileg og dugleg, þetta auðvitað gaf henni byr undir báða vængi. Átröskunin grasseraði sem aldrei fyrr, án vitundar fjölskyldu og vina. Heiða hefur að öllum líkindum glímt við þennan sjúkdóm frá 19 ára aldri. Heilsa Heiðu var orðin mjög slæm en alltaf reyndi hún sitt besta við að vinna og sinna börnunum sínum…………….enn ekki heilsunni.

Það kom tímapunktur hjá Heiðu að hún fór að taka til í sínu lífi, fór að ganga til sálfræðings og geðlæknis með von um að geta bætt sitt líf en aldrei var talað um átröskun, aðallega skilnaðinn við Snorra og sambandið við hann sem var ekki gott á þessum tíma. Heiða tók sig á og fór að líða betur og fór að sjá hvað skiptir mestu í lífinu. Heiða og Snorri tóku saman í janúar 2012 sannfærð að sameina fjölskylduna á ný og nú tóku við góðir tímar þar sem Heiða og Snorri fóru að slípa sig saman og gera upp fortíðina, ástfangin og alsæl byrjuðu þau að búa aftur saman og hamingjan sveif um og börnin blómstruðu sem aldrei fyrr. Heiða á fullu í fasteignasölunni og Snorri með sitt fyrirtæki. Heiða tók miklum framförum og fór að líta betur út, bætti á sig nokkrum kílóum og hennar nánustu sáu að nú var Heiðu farið að líða vel og þau Snorri blómstruðu sem aldrei fyrr, sæl og ástfangin. Slæmu tímarnir búnir og nú var uppbygging hafin. Heiða hugsaði vel um sig og gekk vel í fasteignasölunni. Hún hætti að taka vatnslosandi og allt var á betri veg. Enn sjúkdómurinn var enn til staðar og um vorið 2012 byrjar Heiða aftur að taka vatnslosandi sem hún fékk uppáskrifað af læknum, vegna bjúgsöfnunar. Hún sturtaði í sig töflum og einnig örvandi. Enginn vissi neitt né grunaði neitt, kalíum var í nokkuð góðu standi en hún tók kalíum á hverjum degi. Á haust mánuðum 2012 vildi Heiða fara í ræktina svona til að styrkja sig og bæta á sig vöðvamassa, sem í raun var bara gott mál nema Heiða var í ræktinni helst til að léttast einnig. Hún hélt áfram sínu striki og skolaði öllu út, samt voru viðvörunarbjöllur búnar að klingja en hún hlustaði ekki á þær.

Þann 15. Des 2012 fór Heiða í hjartastopp í bílunum þar sem fjölskyldan var á leið í afmæli. Hjartastoppið varði í um 20 mínútur og Heið hlaut mikinn skaða af. Í raun er það kraftaverk að Heiða skuli vera á lífi, hjartað hennar var orðið svo þreytt út af langvarandi kalíum skorti, það bara gafst upp.

Heiða hlaut mikinn heila skaða út af súrefnisskorti. Hún er í dag bundinn við hjólastól, getur ekki notað hendur né fætur vegna mikils spasma, hún hefur litla sem enga sjón og á erfitt með að tjá sig, hefur ekkert jafnvægi. Já það skemmdist nánast allt hjá henni nema heyrnin og það sem merkilegt er að hún hefur skýra rökhugsun og er hún sjálf. Átröskun kom henni á þann stað sem hún er á í dag.

Heiða lýsir ástandi sínu eins og að vera fangi í eigin líkama.

Fjölskyldan fékk tæpt 1 ár saman eftir að þau tóku saman og síðan skullu þessar hörmungar á þau. Það er ólýsanlega erfitt að sætta sig við þessa staðreynd og að börnin hennar þurfi að horfa á móður sína í dag alveg ósjálfbjarga. Við tóku aftur erfiðir tímar hjá fjölskyldunni sem aldrei fyrr. Heiða var á gjörgæslu og svo á hjartadeild en þaðan fór hún á Grensásdeild. Hún var innskrifuð á Grensásdeild í eitt ár en Snorri fór að taka hana heim fljótlega á kvöldin þannig að Heiða var mest á Grensás á daginn. Fjölskylda Heiðu hefur séð alfarið um hana og Heiða og Snorri búa saman ásamt börnum sínum. Móðir Heiðu kemur á morgnana og hugsar um Heiðu , Heiða fer í sjúkraþjálfun á hverjum degi og er dugleg að æfa sig, þegar Snorri kemur heim úr vinnu þá tekur hann við keflinu, þau reyna að hafa lífið eins eðlilegt og hægt er svona miðað við aðstæður. Þetta er mikið álag á alla í fjölskyldunni og mikil vinna. Börnin eru duglega að hjálpa til. Heiða er að reyna að fá NPA aðstoð en fær ekki eins og er en von er um að hún fái aðstoð frá Kópavogsbæ, en allt svoleiðis ferli er þungt í vöfum og tekur langan tíma. Heiða hefur ekkert fengið frá Kópavogsbæ frá því að hún útskrifaðist af Grensásdeild að undanskildu þrif á heimilinu.

Með von og vilja í brjósti tekst Heiða á við lífið af miklu æðruleysi og er sterk og dugleg. Átröskun er alvarlegur sjúkdómur og er Heiða lifandi dæmi um það.

Kærleiks kveðjur .

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *